top of page
asa5_fix.jpg

Ása Marin er grunnskólakennari að mennt og hafnfirskur fjörfiskur.
Þessi misserin er hún í takmarkalausu fríi frá kennslu með fráhvarfseinkenni sökum þess að hitta ekki daglega unglinga landsins, sem henni finnst upp til hópa snillingar. Í stað þess að kenna situr hún við skriftir, ferðast um heiminn, skvísast á skrifstofu og skrifar námsefni í íslensku.

Í frístundum öskrar hún raddböndin í ræmur yfir tuðrusparki, dansar af sér sokkana á síðkvöldum, les heilu fjöllin af skáldsögum og nýtur samverustunda með vinum
og ættingjum.
 

Hún byrjaði að skrifa ljóð og gelgjulegar dagbókarfærslur á unga aldri. Tíu ára fannst henni góð hugmynd að böðla saman leirburði um systur sína og senda í barnablað Morgunblaðsins. Þannig varð fyrsti útgefni kveðskapur hennar opinberun á því hverjum systir hennar var skotin í.
 

Sextán ára gerðist hún Ljóðdreki í Verzlunarskólanum, ljóðahópur sem naut leiðsagnar Þórðar Helgasonar. Þar breyttist leirburðurinn í ljóð og hún fékk
trú á því að myndmál, ljóðræna og leikur að orðum væri henni í blóð borinn.

Hún hefur gefið út tvær ljóðabækur auk þess að eiga ljóð í fjölmörgum safnritum.

Eftir námskeið hjá Þorvaldi Þorsteinssyni og Hlín Agnarsdóttur daðraði hún við lengri texta og hefur í framhaldi skrifað tvær skáldsögur og einnig smásögur sem birtust í safnriti með öðrum.

 

Frá árinu 2013 hefur hún einnig sameinað rithæfni sína og kennaramenntun og skrifað námsefni fyrir mið- og unglingastig.

bottom of page