top of page

Ljóðmæli

adjordu_trans.png

Að jörðu

Árið 2009 kom ljóðabókin Að jörðu út hjá Nykri. Ljóðin í bókinni hreyfa við tilfinningum tengdum missi og söknuði. Nokkur þeirra hafa birst í minningargreinum og bókin hefur þótt henta vel til gjafar til þeirra sem nýlega hafa misst einhvern sér nákominn.

 

Móðurást

 

Eins og sólin

gafst þú okkur líf,

nærðir okkur,

hélst á okkur hita.

 

Á miðjum degi

lagðir þú þig

á dýnu hafsins

sem breiddi yfir þig.

 

Það snöggkólnar

þar sem við stöndum

í flæðarmálinu,

svo nærri

svo vanmáttug.

Vonum

að eldurinn sem þú

skildir eftir í hjörtum okkar

lifi áfram.

 

 

Vagga

 

 

Í hvert sinn

sem sár grátur barnsins

smaug inn í hjarta hennar

myndaðist sprunga.

 

En það var ekki fyrr en

gráturinn hætti

og þögnin fyllti vögguna

að hjarta hennar

splundraðist.

 

 

Lífið og dauðinn

 

Dauðinn er ekki andhverfa við lífið,

þau eru ofin saman.

Án lífs er enginn dauði.

 

Þau eru samferða okkur um lífið

leiða okkur

á milli sín eins og foreldrar

sem vita hvað er barni sínu fyrir bestu.

Búmerang

Búmerang kom út á sama tíma og Ása Marin útskrifaðist úr Verzlunarskólanum. Ljóðin orti hún á sama tíma og hún var í hópnum Ljóðdrekar sem hittist undir handleiðslu Þórðar Helgasonar.

 

Sakleysi

 

Ég kasta glóandi

geislabaugnum

eins langt og ég get

 

en hann lætur

eins og

búmerang.

 

 

 

 

„Þetta er nokkuð vönduð byrjendabók en umfram allt er hún auðlesin og skemmtileg aflestrar. Ég hygg að óhætt sé að segja að kímni og æskuglettni séu megineinkenni bókarinnar. Hér er ekki tekist á við hin dýpstu rök en augunum beint að spennandi samskiptum kynjanna í ýmsum myndum og þeim veruleika sem blasir við bjartsýnni, ungri konu á uppgangstímum.“

Skafti Þ. Halldórsson, Morgunblaðið

 

 

 

Skot

 

Allt sumarið

dreymdi mig

breimandi freyjuketti

sem kúrðu sig letilega

í augum þínum.

 

Svo loksins

þegar ég hitti þig

voru kisugreyin sofnuð.

 

boomerang.png
bottom of page